12/12/2024

Grásleppuveiði hafin frá Norðurfirði

Á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is kemur fram að þrír bátar munu gera út á grásleppu frá Norðurfirði í vor. Einn þeirra er byrjaður, aðkomubáturinn Jón Emil ÍS 19 frá Ísafirði, skipstjóri og eigandi hans er Skarphéðinn Gíslason. Skarphéðinn lagði yfir 30 net þegar hann kom að vestan þann 3. apríl, en dró upp aftur daginn eftir vegna slæmrar veðurspár sem gekk eftir. Þá fengust rúmar 4 tunnur af hrognum eftir tæpan sólarhring og segir Skarphéðinn það lofa góðu um veiðina. Skarphéðinn lagði netin aftur í gær og bætti við net í sjó. Hinir tveir bátarnir eru ekki byrjaðir ennþá. Það eru heimabátarnir Drangavík ST 160 og Óskar III ST 40 sem eru minni bátar og varla sjóveður fyrir þá enn.