Þótt því fari fjarri að allir vegir séu færir þessa dagana eru samt ýmis ummerki um vorið orðin sjáanleg á Ströndum. Tjaldurinn kom víða á Strandir í vikunni fyrir páska og álftir sjást orðið víða. Í dag eru svo komnar grágæsir á tún við Steingrímsfjörð, tvær saman á Kirkjubóli og þrjár í Húsavík. Erlendum ferðamönnum er líka farið að fjölga og kemur það því miður flatt upp á suma þeirra að ekki sé hægt að keyra Vestfjarðahringinn á þessum árstíma eða að heiðarnar milli Stranda og Reykhólahrepps séu allar lokaðar allan veturinn þótt það komi hvergi fram á kortum eða í ferðabókum. Riðlast því áætlanir og hrökklast sumir inn á hringveginn aftur.