30/10/2024

Glæsileg glitský

Falleg glitský prýddu himinhvolfið á Ströndum eins og víðar um land í gær. Ský eins og þessi myndast í heiðhvolfinu í rúmlega 15 km hæð og sjást helst um miðjan vetur, bæði við sólarupprás eða sólarlag. Þetta gerist þegar kuldinn í heiðhvolfinu er óvenjulega mikill eða meiri en -70°C. Þau eru ýmist úr ískristöllum og stundum úr samböndum ískristalla og saltpétursýru-hýdrötum, en þau síðarnefndu geta valdið ósóneyðingu. Litadýrðin helgast af því að kristallarnir beygja sólarljósið misjafnlega mikið eftir bylgjulengd þess, t.d. beygir grænt ljós meira en gult. Þess vegna verður litaröðin frá jaðri glitskýja gulur, rauður, grænn og blár, en þau eru líka oft hvít í miðjunni.

Ljósm. Ingimundur Pálsson