19/09/2024

Fyrirhuguðum frestunum mótmælt

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar, sem haldinn var í gær var áformum stjórnvalda um frestanir á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum harðlega mótmælt og bent á að þenslan eigi ekki rætur sínar á Ströndum og Vestfjörðum. Þar hafi þvert á móti ríkt samdráttur til fjölda ára og ástand vega á svæðinu sé langt í frá að vera ásættanlegt. Í bréfi til samgönguráðherra kemur einnig fram að það sé von sveitarstjórnar Strandabyggðar að ríkisstjórninni beri gæfa til að viðurkenna sérstöðu Vestfjarða í samgöngumálum og hætta við fyrirhuguð áform um frestun framkvæmda á svæðinu. Ályktunin hljóðar svo:

“Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda um að  fresta öllum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum vegna þenslu í efnahagskerfi landsins. Er hér vegið að búsetu á svæðinu því góðar samgöngur eru forsendur fyrir byggð. Vegurinn suður Strandir er ónýtur og hættulegur allri umferð og ultu nýlega tvær flutningabifreiðar í Bitrufirði þar sem vegkantar gáfu sig undan þunga þeirra. Þá er vegið að samkeppnishæfi fyrirtækja á Vestfjörðum þar sem flutningskostnaður er hér hæstur á landinu m.a. vegna fjölda fjallvega og hálsa. Þó margt hafi áunnist síðast liðin ár í vegaframkvæmdum á svæðinu, og ber að þakka fyrir það, er mikið verk eftir og er það með öllu óásættanlegt að fórna fyrirhuguðum framkvæmdum á altari þenslu á svæði þar sem ríkt hefur samdráttur til fjöldra ára.”

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að öllum vegaframkvæmdum verði frestað sem ekki var búið að bjóða út og er meðal annars haft eftir fjármálaráðherra að þar séu engar undantekningar. Stopp hafi verið sett á öll útboð og ekki víst hvenær því útboðsbanni verður aflétt. Ekki er því ljóst hvort einhver innistæða var fyrir orðum Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og fyrsta þingmanns Norðvesturkjördæmis í fréttum á dögunum að engu yrðu frestað nema að höfðu samráði við sveitarstjórnir.