22/12/2024

Framsókn auglýsir eftir framboðum

Framsóknarflokkurinn hefur á vef sínum auglýst eftir framboðum vegna vals á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2007. Valið verður í 5 efstu sæti listans í póstkosningu meðal félagsmanna sem fram fer dagana 3.-17. nóvember 2006. Framboðum skal skila til kjörnefndar fyrir kl. 22:00 föstudaginn 20. október 2006. Frambjóðendur skulu gefa kost á sér í ákveðin sæti, eitt eða fleiri, þegar þeir tilkynna um framboð sitt. Að baki framboði hvers frambjóðanda skulu að lágmarki vera 10 og að hámarki 20 flokksbundnir meðmælendur.

Með tilkynningu um framboð hvers frambjóðanda skal fylgja stutt æviágrip ásamt mynd sem hægt er að nota til kynningar á frambjóðandanum.

Kjörnefnd Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi skipa, Sveinbjörn Eyjólfsson formaður, Sveinn Bernódusson, Elfa Björk Bragadóttir, Inga Guðrún Kristjánsdóttir og Ingi Björn Árnason.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur Strandamenn, hvar í flokki sem þeir standa, eindregið til að taka þátt í stjórnmálum á landsvísu.