23/02/2024

Frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík

.Upplýsingamiðstöð á Hólmavík er farin að undirbúa sumarstarfið af fullum krafti, en hún verður opnuð í félagsheimilinu í byrjun júní og verður opin yfir sumarmánuðina alla daga frá 9:00-20:00. Fyrirspurnum í tölvupósti hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu misseri og það er ótalmargt sem fólk langar að vita, hvenær sundlaugar séu opnar, hvort hægt sé að ganga yfir Drangajökul á gönguskíðum í júlí eða hvort vegir á Ströndum séu yfirleitt færir fólksbílum. Þá er að venju mikið spurt um hátíðahöld á svæðinu í sumar og dagsetningar á þeim. Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sögusmiðjunnar hefur yfirumsjón með rekstri Upplýsingamiðstöðvarinnar í sumar og þegar hefur verið gengið frá ráðningu starfsfólks.


 

Ferðaþjónar á Ströndum eru hvattir til að senda Upplýsingamiðstöðinni bæklinga og kynningarefni sem fyrst. Einnig er gott fyrir Upplýsingamiðstöðina að hafa tiltækar nokkrar góðar ljósmyndir af húsnæði og starfsemi hvers og eins á tölvutæku formi til að geta sent með svörum við fyrirspurnum. Loks vill Upplýsingamiðstöðin hvetja handverksfólk hjá Strandakúnst til að vera tímanlega tilbúið með varning og minnir á netfangið sitt info@holmavik.is, símann 451-3111 og vefinn www.holmavik.is/info.