22/11/2024

Förum varlega með jólaljósin

150-kertiÍ fréttatilkynningu frá Forvarnarhúsi er bent á að nú líði að þeim tíma ársins sem flestir brunar og tjón verða vegna kertaskreytinga. Gamlársdagur og nýársdagur hafa undanfarin ár verið þeir dagar þar sem flestir brunar tengdir kertum verða og hafa að meðaltali verið um 120 eldsvoðar út frá kertum í desember. Hér að neðan gefur að líta fjölbreytt safn af forvörnum, en rétt er að minna menn líka á að reykskynjarar geta bjargað mannslífum og slökkvitæki og eldvarnarteppi geta bjargað tjóni.

Góð ráð til að koma í veg fyrir kertabruna

Flestir brunar sem verða vegna kerta má rekja til þess að kerti eru látin loga án eftirlits. Í fæstum tilfellum eru það kertin sjálf sem eru orsakavaldurinn, heldur mannleg mistök.

Kertaskreytingar

# Hafið ávallt kertaskreytingar á óbrennanlegum stjökum eða undirlagi sem ekki leiðir hita og er stöðugt.
# Skrautið á skreytingunni má aldrei vera staðsett þar sem hætta er á að kertaloginn nái til þess að brenna auðbrennanlega borða eða annað skraut.
# Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka.
# Til er eldtefjandi efni til að spreyja á kertaskreytingar sem tefur fyrir að kvikni í kertaskreytingunni ef kertaloginn nær í hana.

Öryggi kerta innanhúss

# Látið kerti aldrei loga innanhúss án eftirlits.
# Staðsetning kerta er mikilvæg.
# Dragsúgur getur haft áhrif á bruna kerta.
# Staðsetjið ekki kerti í glugga nærri gardínu.
# Setjið kerti aldrei nálægt sjónvarpi eða tækjum sem gefa frá sér hita.
# Kertastjakinn þarf að vera stöðugur og óbrennanlegur.
# Ekki öll ílát henta sem kertastjakar, falleg glös eða ílát geta hitnað og sprungið við hitann frá kertinu.
# Hafið ekki mishá kerti of nærri hvort öðru. Hiti frá lægra kerti getur brætt hærra kertið.
# Klippið af kertakveik ef hann er of langur.
# Treystið aldrei alfarið á sjálfslökkvandi kerti.

Öryggi útikerta

# Staðsetning útikerta skiptir miklu máli. Ekki er öruggt að setja þau á trépall eða annað efni sem brennur auðveldlega.
# Setjið útikerti ekki of nærri inngangi eða í tröppur þar sem hægt er að reka sig í þau. Logi útikertanna getur auðveldlega náð til flaksandi yfirhafna og gangandi barna.
# Mörg útikerti eru þannig að vax þeirra verður allt fljótandi og formið verður heitt. Snertið þau því ekki með berum höndum og alls ekki þegar kveikt er á þeim.
# Ef snjór eða vatn slettist á vax útikerta þá getur heitt vaxið farið á þann sem stendur nærri.
# Ekki hella vatni á útikerti ef ætlunin er að slökkva á því – betra er að kæfa eldinn.

Almennt um kerti

# Límið aldrei servéttur eða annað auðbrennanlegt utan á kerti.  Það skapar óþarfa eldhættu.
# Nokkur dæmi eru um að kviknað hafi í kertum sem eru með þurrkuðum ávöxtum eða öðru þ.h. innan í vaxinu.
# Vax sprittkerta verður fljótandi og því ekki æskilegt að færa það úr stað á meðan logar á kertinu.
# Setjið sprittkerti aldrei beint á dúk eða borð.  Það hitnar og verður að vera í kertastjaka sem þolir háan hita.
# Kerti sem eru t.d. húðuð með silfri eða gulli eiga það til að ósa meira en venjuleg kerti.  Dæmi eru um að húð þeirra bráðni utan af kertunum.
# Kerti sem eru þríhyrnings eða kúlulaga eru viðkvæm fyrir trekk. Vax þeirra á það til að renna til hliðar sem skapar brunahættu.