19/04/2024

Arnkötludalsvegur verður opnaður 2008

Ríkisstjórnin hefur ákveðið hvernig skuli ráðstafað andvirði af sölu Símans og í greinargerðinni kemur fram að stefnt er að því að ljúka framkæmd Arnkötludalsvegar árið 2008. Í greinargerðinni segir:

Að undanförnu hafa staðið yfir athuganir á gerð nýs vegar milli Vestfjarðavegar í Reykhólasveit og Djúpvegar í Steingrímsfirði í stað núverandi vegarslóða á Tröllatunguheiði. Þessi leið styttir vegalengdina milli Hólmavíkur og Reykjavíkur um 40 km miðað við núverandi leið um Strandir. Kostnaðaráætlun fyrir verkið er 900 m.kr. og á vegáætlun eru 100 m.kr. árið 2008. Ákveðið er að ráðstafa 800 m.kr. til verksins þannig að unnt verði að ljúka þessari vegagerð árið 2008.

Fram kemur í töflu með greinargerðinni að ætlunin er að leggja 400 milljónir í verkefnið 2007 og 400 milljónir árið 2008.

Ennfremur á að leggja 700 milljónir aukalega í framkvæmdir við Vestfjarðaveg – nr. 60. Um þetta segir í greinargerðinni:

Mjög mikið er ógert á Vestfjarðavegi; annars vegar á leiðinni milli Bjarkarlundar og Flókalundar og hins vegar frá Flókalundi til Dýrafjarðar auk þess sem eftir er að endurbyggja veginn um Svínadal í Dölum. Í vegáætlun eru samtals 1.083 m.kr. til þessara verkefna á árunum 2005–2008. Ákveðið er að ráðstafa 700 m.kr. til að flýta framkvæmdum á þessari leið. Að auki er gert ráð fyrir að við næstu endurskoðun vegáætlunar verði aukið enn við fjárveitingar til verksins á árunum 2009 og 2010.