29/04/2024

Jón Gísli í baráttunni

Nú er aðeins ein umferð eftir af Formúlunni á þessu ári. Óhætt er að segja að staðan sé æsispennandi því þeir Hamilton, Alonso og Raikkonen eiga allir möguleika á að vinna heimsmeistaratitil ökumanna. Það er líka mikil spenna í liðsstjóraleik formula.is, en þar stendur Strandamaður í eldlínunni. Það er Jón Gísli Jónsson á Hólmavík, en hann er sem stendur í öðru sæti af þeim 838 liðum sem taka þátt í heildarkeppninni, 81 stigi á eftir liðinu í fyrsta sæti. Hann er einnig langefstur í deildinni strandir.saudfjarsetur.is og er með níu fingur á formúlubikar strandir.saudfjarsetur.is sem hann getur tryggt sér þriðja árið í röð.

Verðlaunin fyrir sigur í keppninni er ferð fyrir tvo á formúlukeppni árið 2008, frí gisting og flug og VIP-miðar á keppnina. Það er því til mikils að vinna, en einnig eru afar veglegir vinningar gefnir allt niður í fjórða sæti. Síðasta formúlukeppnin á þessu ári fer fram á Interlagos-brautinni í Brasilíu eftir hálfan mánuð og þá ætti að koma í ljós hver vinnur; Lewis, Fernando, Kimi eða Jón Gísli. strandir.saudfjarsetur.is munu að sjálfsögðu fylgjast með framgangi mála.