19/04/2024

Rafmagnið óstöðugt

Rafmagnstruflanir hafa haldið áfram á Ströndum í dag og víðar á Vestfjörðum. Rafmagn hefur verið óstöðugt frá því um kl. 15:00 í dag. Höfuðrofi í félagsheimilinu Sævangi var úti þegar að var hugað fyrir skemmstu og þar með hefur líklega verið slökkt á netsambandi þeirra sem tengdir eru háhraða örbylgjusambandi Snerpu á Drangsnesi.

Móttakari og sendibúnaður er í Sævangi til að tengja loftnetin á Hólmavík og Drangsnesi saman, enda er bein sjónlína þaðan á báða staði og svipuð vegalengd í loftlínu. Þetta gerir að verkum að fjölmargir bæir í Tungusveit sem eru í sjónlínu við Sævang, Hólmavík eða Drangsnes geta einnig tengst þessu neti.