04/10/2024

Fjörudagur á Sauðfjársetrinu

Sunnudaginn 27. júní næstkomandi verður haldinn Fjörudagur á Sauðfjársetrinu í Sævangi.  Dagurinn er skipulagður í samvinnu Sauðfjársetursins og Ferðaþjónustunnar Kirkjubóls, en Jón Jónsson á Kirkjubóli sér um að leiða fólk um fjöruna. Fjörudagurinn er skemmtilegur og rólegur dagur fyrir alla fjölskylduna þar sem lífríki fjörunnar er skoðað í gönguferð, kíkt á hreiður, dáðst að fimi kríunnar og kellingum fleytt af hjartans lyst. Í gönguferðinni er einnig sent flöskuskeyti til fjarlægra landa og sá sem finnur stærstu skelina í fjörunni fær verðlaun af sætara taginu.


Gestir eru hvattir til að koma vel stígvélaðir á fjörudaginn. Gómsæt sjávarréttasúpa verður í boði í Kaffi Kind frá kl. 13:00 til kl. 18:00. Fólk er að sjálfsögðu velkomið í súpu, þótt það fari ekki með í gönguferðina um fjöruna.