19/04/2024

Fjör á Jólamarkaði

Líf og fjör var á Jólamarkaði Strandakúnstar í gamla kaupfélagshúsinu á Hólmavík í dag. Þar tróð upp söngflokkur sem var skipaður Salbjörgu Engilbertsdóttur, Sverri Guðbrandssyni, Kristjáni Sigurðssyni og Láru Guðrúnu Agnarsdóttur. Sungu þau jólalög af miklum móð fyrir gesti og gangandi við góðar undirtektir. Voru allmargir mættir til að hlýða á og skoða varninginn á markaðinum.

Var öllum gestum boðið upp á vöfflur og kaffisopa af Strandakúnst og voru það vel þegnar veitingar sem juku á jólaskapið. Tveir jólasveinar villtust síðan inn á markaðinn, börnum og fullorðnum til mikillar gleði og tóku lagið og léku sjálfir undir á gítar.

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is – Jón Jónsson – var að sjálfsögðu á staðnum með myndavélina og smellti af nokkrum myndum sem gefur að líta hér að neðan.