26/12/2024

Býst við góðu ferðasumri

Ester Sigfúsdóttir gistihússtjóri á Kirkjubóli á Ströndum býst við góðu ferðasumri og segir að bókunarstaðan fyrir sumarið sé mjög góð. Það hafi líka verið slæðingur af gestum í allan vetur og yfirstandandi ár hafi byrjað töluvert betur en þau ár sem liðin eru frá því að gistihúsið á Kirkjubóli opnaði fyrst vorið 2001. Ester segir að traffíkin fari venjulega verulega af stað í kringum páskana, en algengt sé að jeppamenn, snjósleðafólk og áhugamenn um skíðagöngu mæti á Strandir í mars og apríl og gisti á gististöðum á Ströndum, því ávallt sé nægur snjór á Steingrímsfjarðarheiði.

"Svo er greinilegt að Galdrasýningin hefur aðdráttarafl allan ársins hring og um páskana er líka alltaf eitthvað um að vera í menningarlífinu á Ströndum. Nú eru til dæmis fyrirhugaðar sýningar hjá Leikfélagi Hólmavíkur um páskana," segir Ester.

Síðasta sumar var aukið töluvert við gistirýmið á Kirkjubóli og var 7 herbergjum bætt við þau 5 sem fyrir voru. Nú geta vel yfir 20 manns gist á Kirkjubóli yfir sumartímann, en herbergin sem standa til boða eru færri yfir veturinn. Gistihúsið á Kirkjubóli er á meðal þeirra fyrirtækja sem munu kynna starfsemi sína og þjónustu á Strandabásnum á sýningunni Perlan Vestfirðir sem haldin verður í Perlunni í Öskjuhlíð í Reykjavík dagana 5.-7. maí í vor.

Vefur Ferðaþjónustunnar Kirkjubóls er á slóðinni www.strandir.saudfjarsetur.is/kirkjubol.

Kirkjuból í Steingrímsfirði