29/03/2024

Bátadagar á Reykhólum

Breiðfirskir bátadagar eru haldnir nú um helgina í annað sinn og verður siglt á súðbyrtum bátum frá höfninni á Stað á Reykjanesi (utan við Reykhóla) og í Skáleyjar, Hvalllátur, Svefneyjar og Flatey. Hópur sem unnið hefur að stofnun Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum stendur fyrir Bátadögum og nokkur fjöldi mun taka þátt í siglingunni. Þeir sem engan eiga bátinn þurfa þó ekki að örvænta því Eyjasigling siglir með gesti milli lands og eyja alla helgina.

Bátarnir leggja úr höfn á Stað kl. 10:00, en hugmyndin er að gista í Flatey næstu nótt og láta bátana fjara í Grýluvogi í Flatey í kvöld. Nánar má fræðast um verkefnið á www.reykholar.is og www.batasmidi.is.