Ein af þeim bókum sem komu út fyrir jólin að þessu sinni er söguritið Undir Snjáfjöllum – þættir um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd eftir Engilbert S. Ingvarsson sem er nú búsettur á Hólmavík. Í bókinni er lýst ýmsum þáttum í félagslífi og lifnaðarháttum fólksins á Snæfjallaströnd við norðanvert Ísafjarðardjúp og sagt frá því hvernig nútímavæðingin breytti þessu afskekkta og einangraða samfélagi sem var þó mannmargt áður fyrr. Engilbert fæddist og ólst upp á Snæfjallaströnd og var bóndi á Tyrðilmýri frá 1953 til 1987, en nokkrum árum síðar fór Snæfjallaströndin í eyði.
Framundir miðja 20. öld voru atvinnuhættir þar með sama frumstæða hætti og hafði verið um aldir. Þetta var einangrað og afskekkt samfélag og snjóþungt með afbrigðum. Þrátt fyrir það stóð mannlíf þar í miklum blóma á fyrri hluta 20 aldar, segir í bókarkynningu.