Strandagaldur hefur tekið upp á þeirri nýbreytni að bjóða gestum á Galdrasýningunni á Hólmavík upp á áætlunarferðir á milli sýninganna á Hólmavík og Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði. Að sögn Sigurðar Atlasonar framkvæmdastjóra Strandagaldurs þá var ákveðið að bjóða upp á þetta þar sem það eru hvort sem er nánast daglegar ferðir á milli sýninganna á vegum Strandagaldurs. Hann gerir ekki endilega ráð fyrir mikilli ásókn í þjónustuna þar sem langflestir ferðamenn eru á eigin bílum eða bílaleigubílum en hann segir að það slæðist þó inn á milli gestir á Galdrasafnið sem hafa komið til Hólmavíkur hjólandi, gangandi eða með rútu og hafi takmarkaða möguleika á að komast á sýninguna Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði.
"Þetta er svona tilraun til að auka við þjónustuna og ég geri ráð fyrir að með tíð og tíma þá spyrjist það út að þessi þjónusta er í boði" segir Sigurður, "og er ekki er það verra fyrir gesti okkar að fá smá leiðsögn frá Hólmavík yfir í Bjarnarfjörð í leiðinni."
Hér að neðan er þýskt auglýsingaplakat sem hangir uppi á Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík og á Galdrasafninu á Hólmavík.