25/04/2024

Grímseyin skartar sínu besta

Grímsey ST-2  skartaði sínu besta þegar hún sigldi inn Steingrímsfjörðinn um daginn, enda að koma heim úr botnhreinsun og skveringu á Skagaströnd. Grímsey er fimmtug á þessu ári og ber aldurinn ótrúlega vel. Er bara nokkuð góð með sig, enda hefðarfrú í flotanum hér við Steingrímsfjörð. Um leið og við óskum sjómönnum til hamingju með daginn birtum við hér að neðan ljóð sem Friðgeir Höskuldsson skipstjóri á Grímsey ST-2 fékk afhent í tilefni af 50 ára afmæli bátsins í janúar á þessu ári.

  
 
 

Grímsey –fimmtíu ára 2006 
 
Fimmtug er Grímsey – en flott sem áður
fer henni vel hið rauða traf.
Skipstjórinn oftast skýr og gáður,
skyldunni þjónar vítt um haf.
 
Hvernig sem Ægir upp sig rífur,
einbeittir sjómenn við hann kljást.
Grímsey hans skafla kröftug klýfur,
kappar um borð þar hressir sjást.
 
Framtakið hreint er öllu æðra,
íslenska seiglan sterk og greið.
Happaskip gott í höndum bræðra
hyllt skal á bjartri sigurleið.
 
Ljómi skín enn af fögru fleyi.
Fimmtug er Grímsey býsna ern.
Haldi hún glæst um hafsins vegi,
Hamingjan blessi róður hvern.
 
Höf.  Rúnar Kristjánsson

Grímsey – ljósm. Jenný Jensdóttir