10/09/2024

Mikið landbrot á Borðeyri

Nýr grjótgarður varnaði því að ekki fór enn verr í miklu landbroti við Borðeyri í suðaustan rokinu þann 30. desember síðastliðinn, þar sem Borðeyrartanginn svokallaði nánast hvarf þann dag. Grjótgarðurinn er að vísu við norðanverðan tangann, þar sem landbrot hefur verið viðvarandi um tíma.  Svo mikið fór af tanganum sunnanverðum að grjótgarðurinn var farin að halda verulega á móti, þannig að hann var í raun farinn að virka öfugu megin frá.

Alvanalegt er að tanginn sem er að mestu úr sandi færist til eftir ríkjandi vindáttum en þarna var eitthvað nýtt á ferðinni. Áður en þessi ósköp dundu yfir var endinn á siturlögninni við Tangahúsið marga metra frá bakkanum en er núna við flæðarmálið. Reikna má með að tanginn jafni sig með tímanum, en ljóst er að einhverjar lagfæringa er þörf þarna sem fyrst.

Það var á haustdögum sem þessi mikli garður var hlaðinn við Borðeyri. Garðurinn nær frá Meleyri sem er norðasta íbúðarhúsið á eyrinni og liggur svo óslitið vel út á tangann fyrir norðaustan Tangahúsið. Garðurinn var hannaður af Siglingastofnun, sem bar um 7/8  af kostnaði en Bæjarhreppur var svo með 1/8. Verkið var unnið af verktakafyrirtækinu Víðimelsbræður ehf frá Sauðárkróki.

Skiptar skoðanir hafa verið um útlit og lögun garðsins. Þykir mönnum hann vera full öflugur, en þó fyrst og fremst sá hluti sem liggur frá gamla sláturhúsinu og norður úr. Landbrotið hefur nánast eingöngu verið frá svæðinu frá gamla sláturhúsinu og út á tangann þar sem svo hefur brotið úr undanfarna áratugi að Tangahúsið var nánast komið í flæðarmálið. En fyrir norðari hlutann hefði eflaust dugað mun veigaminni hleðsla. Eftir að garðurinn kom er engin fjara í víkinni fyrir norðan tangann sem þykir miður. Einnig er garðurinn mun hærri en landið við eyrina, þannig að augljóslega verður mikil snjó og krapasöfnun fyrir innan hann á götunni. Spurning er hvort ekki sé viturlegt að lækka hann á þeim kafla.

Þó má sjá ljósa hlið á þessari miklu hæð, ef til vill hefur hönnuður garðsins haft það í huga að svona byrgir hann sýn þeirra sem að austanverðu aka, sem sjá þá síður bæði drasl og dót sem safnast vill með veggjum svona baka til.

Landbrot - ljósm. Sveinn Karlsson

frettamyndir/2008/580-grjotg-bord2.jpg

frettamyndir/2008/580-grjotg-bord3.jpg

frettamyndir/2008/580-grjotg-bord5.jpg

Grjótgarðurinn á Borðeyri – Ljósm. Sveinn Karlsson