22/12/2024

Bílvelta á Kálfanesi í gær

VegvísirErlendir ferðamenn á ferð um Strandir urðu fyrir því óláni að velta bílaleigubíl á Kálfanesi, rétt norðan við Hólmavík í gær. Að sögn Hannesar Leifssonar lögregluvarðstjóra á Hólmavík urðu lukkulega engin slys á fólki. Vegurinn sem um ræðir er tvíbreiður og malbikaður og er einn af albestu vegarspottum í sýslunni, engu að síður þá er rétt að fara varlega eins og ávallt í umferðinni og gæta að sér. Sérstaklega þegar farið er um ókunnar slóðir. 

Galdratrúin segir að ef maður ber á sér galdrastafinn Vegvísir, þá muni maður trauðla villast í hríð né verða úti, og eins rata þó maður sé ókunnugur og eiga góða heimkomu að auki. Þó er kannski rétt að treysta ekki um of á mátt galdrastafa í jafn alvarlegri athöfn og akstur á þjóðvegum landsins er, sem er nokkuð sem enginn ætti að vanmeta.