24/07/2024

Bergur Thorberg kemur

Bjarni Ómar með tvær kaffimyndir eftir Berg ThorbergBergur Thorberg myndlistamaður kemur við á menningarhátíð á Hólmavík, á leið sinni til til Flórens, þar sem honum hefur verið boðið að taka þátt í Flórenstvíæringnum. Að sögn Bjarna Ómars Haraldssonar er Bergur þekktasti listamaðurinn sem tekur þátt í þessari hátíð, en Félagsmiðstöðin Ozon, sem Bjarni er í forsvari fyrir, heldur þessa hátíð öðru sinni á laugardaginn kemur klukkan átta.

„Hugmyndin kviknaði í fyrra og var hátíðin þá öðrum þræði sett upp sem liður í námi mínu í tómstunda- og félagsfræðum við KHÍ. Hún var vel heppnuð og yfir 130 manns komu að horfa á þannig að við ætlum að endurtaka leikinn í ár. Að þessu sinni verðum við þó flytja hátíðina úr Bragganum í Félagsheimilið vegna plássleysis. Við erum bjartsýn og reiknum með 150-180 áhorfendum". Bjarni segir krakka á aldrinum 13-16 sjá alfarið um skipulagningu hátíðarinnar. Hans hlutverk sé einkum að hafa eftirlit með vinnu þeirra fimm undirbúningsnefnda sem krakkarnir tuttugu sjö að tölu skiptast í.

„Undirbúningurinn felst í að finna skemmtiatriði, hafa samband við þá sem aðstoða, redda tæknimálum, útvega kaffiveitingar og slíkt," segir Bjarni. Alls verða um 20 atriði flutt á hátíðinni, auk þess sem Bergur verður með myndlistasýningu. Kaffi verður selt í hléi og mun Bergur þá skapa listaverk á staðnum úr sínum kaffibolla, en hann hefur skapað sér þá sérstöðu að mála myndir með kaffi.  Krakkarnir eru sjálfir með nokkur tónlistar og leiklistaratriði, ásamt spuna, en einnig koma fullorðnir skemmtikraftar úr byggðarlaginu og yngri krakkar að hátíðinni og gefa allir vinnu sína. Auk þess gefa foreldrar kaffiveitingarnar.

Þá verður á menningarhátíðinni afhjúpað merki Félagsmiðstöðvarinnar Ozon en samkeppni um það var haldin í janúar. Alls bárust um þrjátíu tillögur að merkjum og komu þær allar frá nemendum Grunnskólans á Hólmavík. Hátíðin átti upphaflega að vera fyrir jól en Bjarni segir ekki auðvelt að finna viðburði sem þessum dag í atburðadagatali Strandamanna. Þá hafi verkfall kennara sett strik í reikningin, enda er félagsstarfið nátengt skólastarfinu.

„Ég byggi þennan atburð eins annað í okkar starfi á hugmyndafræði um reynslunám, það er að börnin læri með því að framkvæma, það er ekki síður mikilvægur partur af þessu heldur en að koma fram. Þetta skipulag gekk mjög vel upp í fyrra og tóku þau hlutverk sitt alvarlega. Menningarlífið hér er afar blómlegt og mikið um að vera. Hátíðin er góð viðbót við það og var í fyrra ein stærsta fjáröflun Félagsmiðstöðvarinnar, enda rennur ágóðinn beint í starfsemi hennar. Og að sjálfsögðu er um að ræða vímuefnalausa fjölskylduskemmtun," sagði Bjarni Ómar Haraldsson, forstöðumaður Félagsmiðstöðvar Ozon á Hólmavík.