26/04/2024

Barátta Bjarna og Kristjáns

Tippleikur strandir.saudfjarsetur.is heldur áfram um helgina af meiri krafti en nokkru sinni. Þá mætast kennararnir Kristján Sigurðsson og Bjarni Ómar Haraldsson á Hólmavík, en Kristján á góða möguleika á því að ná Jóni Jónssyni að stigum í leiknum fljótlega ef hann hefur sigur um þessa helgi. Bjarni er þó ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir og það má sjá á spánni hans sem einkennist af fjölda útisigra. Sjö leikir eru ólíkir hjá köppunum og því góðar líkur á harðri baráttu innan vallar sem utan, en Kristján segir að Bjarni eigi e.t.v. "ekki von á góðu" ef hann vinnur. Bjarni hefur hins vegar vit á því að þegja enda hætt við miklum erjum á vinnustaðnum á næstunni, óháð því hver úrslitin verða. Hægt er að sjá spár helgarinnar hér fyrir neðan:

1. Liverpool – Tottenham

Kristján: Liverpool tekur þetta þó Tottenham hafi verið að spila vel undanfarið. Það hlýtur að vera gaman að lifa hjá Liverpool mönnum sem loksins er farið að geta eitthvað á ný. Þeir spila þó alltaf þennan 1- 0 fótbolta eins og íslenska landsliðið. Tákn: 1.

Bjarni: Já þetta verður mikið fjör. Þó að það sé mér í blóð borið frá blautu barnsbeini að hafna sigri hinna ensk/frönsku Lifrapolla þá leyfi ég þeim að njóta vafans að þessu sinni: Tákn: 1.

+++

2. Arsenal – Middlesbro

Kristján: Arsenal er með fínt lið og hefur þetta.Eftir tapið fyrir Wigan koma þeir kolvitlausir til leiks. Nærfatamaðurinn Ljungberg skorar 2 mörk. Tákn: 1.

Bjarni: Eitthvað eru þeir félagar í Arsenal að slaka á miðað við undanfarin ár. Ég hef hinsvegar mikla trú á að liðinu takist að knýja fram sannfærandi sigur á Middlesbro sem vermir neðri hluta deildarinnar: Tákn: 1.

+++

3. Fulham – Newcastle

Kristján: Nú skorar Heiðar og Fulham vinnur. Annars veit ég ekki hvort hann er meiddur. Ef sú er raunin er ekkert að marka þessa spá. Tákn: 1.

Bjarni: Hér eru jafningjar á ferð og lítið verður um stóra tilburði. Bæði liðin eru sátt við að hanga áfram um miðja deild: Tákn: X.

+++

4. Aston Villa – West Ham

Kristján: Aston Villa sigrar hef ég á tilfinningunni. Þetta verður sennilega leikurinn sem skilur á milli mín og Bjarna. Tákn: 1.

Bjarni: Villamenn koma fullir bjartsýni til leiks um helgina eftir góðan sigur á W.B.A í vikunni á meðan leikmenn Vesturskinku þurfa að eiga við innri baráttu eftir tap gegn Chelsea. Innri baráttan styrkir West Ham hins vegar til góðra hluta meðan Villarnir  eru enn í sigurvímu og gleyma sér: Tákn: 2.
 
+++

5. Portsmouth – Everton

Kristján: Það er jafnteflislykt af þessum leik. Tákn: X.

Bjarni: Everton verður að taka þennan leik til að fara ekki að verma botnsætið. Á sama hátt þurfa leikmenn Portsmouth að sanna sig og komast af botninum. Þeir hafa þó ekki nægan styrk gegn refunum í Everton sem sigra að lokum: Tákn: 2.

+++

6. Charlton – Birmingham

Kristján: Charlton tekur þetta. Hermann klikkar ekki og skorar með skalla í lok leiks. Tákn: 1.

Bjarni: Charlton menn ættu að merja sigur þó allt geti farið á versta veg um þá spá ef leikmenn Birmingham taka sér tak: Tákn: 1.
 
+++

7. Blackburn – Bolton

Kristján: Bolton er í stuði þessa dagana. Tákn: 2.

Bjarni: Eftir glæsilegt 2-2 jafntefli  gegn Liverpool á dögunum verður ekki vandamál hjá Bolton að verjast stórsókn Blackburn og knýja fram sanngjarnan sigur á útivelli: Tákn: 2.

+++

8. Ipswich – Sheff. Utd.

Kristján: Ætla að halda áfram að veðja á Ipswich. Það er ekki útaf neinu sérstöku nema nostalgíu í mér síðan í gamla daga. Tákn: 1.

Bjarni: Nú er komið að því að Sheffield. Utd. spýti í lófana. Þeir komast þó ekki lengra en að ná jafntefli gegn Ipswich sem er örugglega ásættanlegt fyrir bæði lið. Tákn: X.

+++

9. Brighton – Leeds

Kristján: Leeds tekur þetta. Hvenær skyldu þeir ætla að ná sér á strik aftur?  Það er að verða erfitt því í fótboltanum stjórna peningar sem aldrei fyrr og lið sem ekki er ríkt á engan séns. Þeir ríku verða ríkari o. s. frv. eins og í raunveruleikanum hér á Íslandi. Tákn: 2.

Bjarni: Leeds tekur þennan og Brighton menn verða að sætta sig við stórt tap: Tákn: 2.

+++

10. Hull – C. Palace

Kristján: Alveg eru óþolandi svona leikir þar sem maður veit ekkert af viti um liðin. Hull er nú borg sem flytur inn mikið af fiski frá Frigga. Það reyndist vel síðast að veðja á það. Ætli maður haldi því bara ekki áfram. Tákn: 1.

Bjarni: Sem strákur fór ég í siglingar með pabba og m.a. annars 4 sinnum til Hull. Þá sá ég ásamt nokkrum áhugasömum sjóurum m.a. Hullarana spila við nágrannaliðið Grimsby Town. Þeir stóðu sig betur í minningunni en þeir gera þessa dagana. Þeir bíða því lægri hut fyrir Kristallshallardrengjunum. Tákn: 2.

+++

11. QPR – Southampton

Kristján: OPR vinnur. Ekkert meira um það að segja. Tákn: 1.

Bjarni: Ef einhverjir standa jafnfætis verður það hér. Einhvernvegin finnst mér samt að Southampton gæti haft betur en tek þó ekki sénsinn og held mig við jafntefli. Tákn: X.

+++

12. Plymouth – Norwich

Kristján: Norwich vinnur þetta. Gulu kanarífuglarnir eru í stuði þessa dagana. Tákn: 2.

Bjarni: Plymouth fær ekki tækifæri til að lyfta sér af botninum í þessari viðureign og tapar naumlega eftir harða baráttu fyrir tilveru sinni: Tákn: 2.

+++

13. Sheff. Wed. – Leicester

Kristján: Hef einhvernvegin trú á Leicester. Miðað við fréttirnar sem alltaf eru af Guðjónssyninum geta þeir varla tapað. Tákn: 2.

Bjarni: Bæði liðin sem hér um ræðir þurfa á sigri að halda. Sheffield tekur þetta með einhverjum undraverðum hætti. Þessu held ég fram þar sem mig dreymdi fyrir sigurmarki á lokamínútu leiksins. Þess ber þó að geta að ég er ekki berdreyminn og les illa úr mínum fáu draumum. Í þessu ljósi hefði ég kannski átt að hafa úrslitin á hinn veginn en… Tákn: 1.

+++
 
Kristján: Nú er að duga eða drepast. Í þetta sinn stefni ég á að ná Jóni með fjölda sigra. Þannig verða ekki teknir neinir sénsar í þetta sinn. Heldur einungis veðjað á öryggið. Bjarni Ómar er nú í vinnu hjá mér að hluta og á ekki von á góðu ef hann vinnur.