13/10/2024

Allt að verða klárt fyrir Góugleðina

Árleg góugleði Hólmvíkinga verður haldin annað kvöld og nefndarmenn eru að leggja síðustu hönd á plóginn fyrir skemmtunina. Að sögn Ingimundar Pálssonar sem er einn nefndarmanna hafa æfingar gengið vel og hann segir það vera mesta furða hvað menn eru almennt minnugir á texta. "Strákarnir eru óborganlegir," segir Mundi. "Stundum áttar maður sig enganvegin á því hver er að leika hvern eða hvort einhver annar er að gera grín að mótleikaranum eða einhverjum öðrum, eða hvort sá sé yfirleitt í réttu leikriti, en það hefur bæst stöðugt við textann á hverju kvöldi," bætir hann við. Svo tístir í honum eins og honum einum er lagið.

Maturinn kemur frá Café Riis og að sögn Báru Karlsdóttur yfirmatreiðslumanns verður nægur matur og talsvert lagt í hann. Á veisluborðinu verður m.a. að finna:

Lambalæri
Svínalundir í hnetusósu
Grilluð svínarif
Kjúklingur í satai kókossósu
Grillaður kjúklingur
Djúpsteiktar rækjur
Gratineruð lúða með hörpuskel og rækjum
Kalkúnn og pasta
Saltfiskur á ítalska vísu
Graflax
…og að sjálfsögðu viðeigandi meðlæti með öllum réttum.

Húsið opnar klukkan 19:30 annað kvöld og aðgangseyrir er 5.000 kr. Enn er hægt að fá nokkra miða.


Hvort Bjössi Pé er í hlutverki smala eða einhvers annars, skal ósagt látið.