22/12/2024

Aldur Strandamanna

Í bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag er að finna aldursskiptingu íbúa í hverju sveitarfélagi. Þegar aldursskipting í sveitarfélögum á Ströndum er skoðuð kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Eitt það fyrsta sem menn reka eflaust augun í er sú staðreynd að aðeins einn íbúi í Strandasýslu er eldri en níræður; það er heiðurskonan Ingibjörg Sigvaldadóttir sem býr á Svanshóli í Bjarnarfirði.

Þegar dýpra er rýnt í aldurstölurnar sést að meðalaldur íbúa milli sveitarfélaga er nokkuð mismunandi. Broddaneshreppur sker sig reyndar þó nokkuð úr hvað þetta atriði varðar, en meðalaldur þar er ríflega 10 árum hærri en í næsta sveitarfélagi. Aldursdreifing íbúa er minnst í Árneshreppi, en til gamans má nefna að elsti íbúi þar er einungis 71 árs, ólíkt því sem margir kunna að halda.

  • Meðalaldur í Broddaneshreppi er 51 ár.
  • Meðalaldur í Árneshreppi er 40.4 ár.
  • Meðalaldur í Kaldrananeshreppi er 37 ár.
  • Meðalaldur í Bæjarhreppi er 34.4 ár.
  • Meðalaldur í Hólmavíkurhreppi er 34.3 ár.
Þegar aldursdreifingin sjálf er skoðuð sést glögglega að það vantar sárlega yngra fólk og börn í sveitahreppana, að Bæjarhreppi undanskildum. Sem dæmi um það eru einungis sex einstaklingar undir tvítugu skráðir í Broddaneshreppi. Það vekur einnig athygli að í Broddaneshreppi er bara einn á aldursbilinu 30-39 ára.

Það er umhugsunarefni hversu fáir íbúar yfir áttræðu eru búsettir á Ströndum – en þeir eru einungis 15 talsins. Þá er einnig sérstakt að sjá hversu margir á aldrinum 50-59 ára eru búsettir í Kaldrananeshreppi miðað við aðra aldurshópa þar.

Íbúar 0-10 ára eru 111 talsins. (Þar af 3 í Árneshreppi, 4 í Broddaneshreppi, 14 í Kaldrananeshreppi, 19 í Bæjarhreppi og 71 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 10-19 ára eru 128 talsins. (Aðeins 2 í Broddaneshreppi, 7 í Árneshreppi, 14 í Bæjarhreppi, 19 í Kaldrananeshreppi, 86 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 20-29 ára eru 103 talsins. (Einungis 7 í Broddaneshreppi, 13 í Árneshreppi og Bæjarhreppi, 16 í Kaldrananeshreppi og 54 í Hólmavíkurhreppi),

Íbúar 30-39 ára eru 81. (Bara 1 í Broddaneshreppi, 4 í Árneshreppi, 13 í Kaldrananeshreppi, 15 í Bæjarhreppi og 48 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 40-49 ára eru 124 talsins. (5 í Broddaneshreppi, 7 í Árneshreppi, 13 í Kaldrananeshreppi, 14 í Bæjarhreppi og 85 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 50-59 ára eru 99 talsins. (8 í Bæjarhreppi, 10 í Broddanes- og Árneshreppi, 27 í Kaldrananeshreppi og 44 í Hólmavíkurhreppi). 

Íbúar 60-69 ára eru 66 talsins. (5 í Kaldrananeshreppi, 10 í Árneshreppi, 11 í Broddaneshreppi, 12 í Bæjarhreppi, 28 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 70-79 ára eru 65 talsins. (3 í Árneshreppi, 6 í Bæjarhreppi, 7 í Kaldrananeshreppi, 11 í Broddaneshreppi og 38 í Hólmavíkurhreppi.)

Íbúar 80-89 ára eru 14 talsins. (Enginn í Árneshreppi, 2 í Kaldrananes-, Bæjar- og Broddaneshreppum og 8 í Hólmavíkurhreppi).

Íbúar 90 ára og eldri er aðeins 1. (1 í Kaldrananeshreppi).