19/09/2024

Fótboltakappamót í sumar!

Fótboltakappar sem gerðu garðinn frægan í liði Héraðssambands Strandamanna (HSS) á árunum 1975-77, ætla að koma saman í sumar á Hólmavík, aðra helgi í júlí. Tilefnið er 30 ára afmæli þessa gullaldarliðs. Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur komist yfir afrit af bréfi sem Magnús Ólafs Hansson sendir "gömlum" leikmönnum og er það birt í heilu lagi hér að neðan.


Blessaður og sæll kæri vinur !

Mér undirrituðum hefur verið falið að skrifa þér bréf sem ég geri með mikilli gleði.

Það hefur verið rætt í þó nokkur ár að ,,gamlir" leikmenn með Héraðsambandi Strandamanna HSS komi saman eins og einn dag norður á Hólmavík og rifji upp (og hæli sér) fyrir árin 1975 til 1977 þegar hvað mesti uppgangur var í knattspyrnunni í Strandasýslu.

Undirbúningsnefnd burtfluttra hefur þegar haldið sinn fyrsta fund, þar sem ákveðið var að liðið hittist á Hólmavík aðra helgi í júlí nk. til minnast 30. ára afmælis liðsins.
Auðvitað eru aðstæður ekki eins hjá öllum leikmönnum, þess vegna er þetta bréf skrifað í tíma svo hægt sé að undirbúa væntanlegt mót.

Í undirbúningsnefnd heimamanna á Hólmavík voru fengnir : Gunnlaugur Bjarnason, Guðmundur V. Gústafsson og Haraldur V.A. Jónsson.

Í undirbúningsnefnd burtfluttra voru fengnir : Andrés G. Jónsson Ísak P. Lárusson, Örn L. Stefánsson, Þorkell Jóhannsson og Magnús Ólafs Hansson.

Undirbúningsnefnd burtfluttra ákvað jafnframt á fundi sínum 10. nóv. sl að nota veturinn í vetur til að undirbúa ljósmyndasýningu frá þessum knattspyrnuárum, sem komið verði fyrir einhvers staðar á Hólmavík. Jafnframt verði stefnt að því að sýna á myndbandi styrktarleikinn, eða hluta af honum, sem var spilaður á Sævangi, árið 1985 milli þáverandi heimamanna og okkar. Eins og þið munið var þessi leikur til styrktar nýju íþróttahúsi á Hólmavík.  

Með bréfi þessu ert þú kæri ,,gamli" leikmaður HSS, beðinn að leita í fórum þínum að áhugaverðum ljósmyndum  frá þessum knattspyrnuárum og senda þær til Ödda,fyrir komandi áramót, en heimilisfang hans er: Örn L. StefánssonBreiðuvík 20112 Reykjavík. Myndirnar verða síðan endursendar viðkomandi þegar búið er að skanna þær og gera þær sýningahæfar.

Að sjálfsögðu mun stuðningsmaður liðsins númer 1. frá þessum árum, Hrólfur Guðmundsson frá Hólmavík einnig fá bréf og vonandi taka þátt með okkur.

Mér þætti vænt um að þú létir mig, undirritaðan, vita hvort þú hafir fengið bréfið, hvað netfangið er hjá þér, sömuleiðis hvort þú sæir þér fært að taka þátt með okkur.

Fyrir hönd undirbúningshóps burtfluttra.

Vinsamlegast,

Magnús Ólafs Hansson
Tröð
415 Bolungarvík
vasasími: 868 1934
netfang: molh@vestfirdir.is