06/01/2025

Aðeins þrír nemendur í Finnbogastaðaskóla

Aðeins þrír nemendur verða við nám í barnaskólanum á Finnbogastöðum í Trékyllisvík í vetur. Nemendurnir eru á aldrinum 6 til 13 ára, tvær stúlkur og einn drengur. Aldrei hafa verið jafn fáir nemendur í skólanum. Starfsmenn við skólann eru þrír; skólastjóri, leiðbeinandi og matráður og eru það allt konur. Nýr leiðbeinandi að nafni Reynhildur Karlsdóttir var ráðin við skólann í haust. Reynhildur var ráðin til áramóta og lengur ef með þarf í stað Bjarnheiðar Fossdal á Melum sem til margra ára hefur verið kennari við skólann. Bjarnheiður lenti í alvarlegu bílslysi í sumar en er á batavegi og kemst vonandi til starfa aftur í vetur.

Skólastjóri við Finnbogastaðaskóla er Jóhanna Þ. Þorsteinsdóttir, en það er morgunljóst að skólinn er einn sá allra fámennasti á landinu, ef ekki sá fámennasti.

580-nemendur-finnbst-2006

Nemendur Finnbogastaðaskóla ásamt starfsmönnum.
Ljósm. JGG.