Engin tíðindi hafa borist fréttariturum strandir.saudfjarsetur.is sem varða starfsemi Café Riis í sumar en óhætt að segja að framundan sé meiriháttar aflabrestur í ferðaþjónustu-greininni á Ströndum ef ekkert fer að gerast í málunum á allra næstu dögum. Café Riis skipti um eigendur snemma í vor en erfiðlega hefur gengið hjá nýjum eigendum að selja eða leigja reksturinn. Um tíma bárust fréttir um að nýr rekstraraðili væri kominn að veitingastaðnum en ekkert varð af þeim viðskiptum. Ferðaþjónustuaðilar á Ströndum eru almennt mjög uggandi yfir hvaða áhrif þessi seinagangur hefur á afkomuna næstu ár, en veitingastaðinn er að finna í kynningarefni mjög víða, bæði á netinu og í útgefnum bæklingum.
Ef kaupandi eða rekstraraðili að Café Riis gefur sig ekki fram mjög fljótlega þá má líkja ástandinu í ferðamálum á Ströndum við ástand sem myndi verða í fiskvinnslunni ef togara byggðarlags yrði lagt með hundruðir tonna kvóta sem myndi þá ekki nýtast neinum.