16/06/2024

Bjarni Ómar stýrir Hólmavíkurhátíð

Bjarni Ómar Haraldsson kennari við Tónskólann á Hólmavík hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Hólmavíkurhátíðar sem haldin verður dagana 1.-3. júlí í sumar. Tveir mánuðir eru því til stefnu við undirbúninginn, en hreppsnefnd hefur samþykkt tillögu menningarmálanefndar um að verkefnið hafi eina milljón úr að spila í undirbúning, markaðssetningu og framkvæmdina sjálfa. Menningarmálanefnd ákvað á fundi sínum þann 18. apríl að mæla með Bjarna eftir að hafa kallað umsækjendur í viðtöl og hreppsnefnd staðfesti síðan ráðninguna þann 26. apríl. Aðrir umsækjendur um stöðuna voru Jón Jónsson á Kirkjubóli og Arnar S. Jónsson á Hólmavík sem dró umsókn sína til baka áður en niðurstaða fékkst.