25/11/2024

Dagar Hilmis taldir

Grein eftir Stefán Gíslason
Ég var einn þeirra bjartsýnu manna, sem stóðu fyrir því einn dimman janúardag 1996 að koma eikarbátnum Hilmi ST-1 á þurrt, en hann hafði þá nýlega lokið rúmlega 50 ára þjónustu sinni við atvinnulífið á Hólmavík. Við, þessir bjartsýnu menn, ólum með okkur draum um nýtt hlutverk fyrir Hilmi, Hólmvíkingum og ferðamönnum nútíðar og framtíðar til fróðleiks og yndisauka. Draumurinn var að Hilmir yrði gerður aðgengilegur á þurru landi sem nokkurs konar safn um útgerðarsögu Húnaflóa, enda var báturinn þá þegar einn af fáum sæmilega heillegum eikarbátum frá upphafi lýðveldisins, auk þess að hafa leikið einstakt hlutverk í atvinnusögu Hólmavíkur.

En bjartsýni og afl til framkvæmda fara ekki alltaf saman. Sumir þessara bjartsýnu manna eru fallnir frá fyrir aldur fram og sumir fluttir burt. Aðrir bjartsýnir menn hafa ekki leyst þá af hólmi. Þess vegna er draumurinn úti. Hilmir mun ekki flytja komandi kynslóðum neinn fróðleik eða skilaboð, heldur verður honum fargað, helst fyrir jól að mér skilst.

Ég verð samt áfram þeirrar skoðunar, að með því að rífa Hilmi sé verið að rýja Hólmavík hluta af þeirri sérstöðu sem annars gæfi henni hvað mesta möguleika í framtíðinni. Mér finnst illa komið fyrir sjávarplássi, sem hefur byggt tilveru sína á útgerð áratugum saman, þegar búið er að afmá flest það sem minnir á söguna. Það vekur alla vega ekki mikla lotningu hjá mér að koma í sjávarpláss þar sem engin sjóför eru eftir nema plastbátar. Ekki það að lotningin í mér skipti öllu máli. Hins vegar er næsta víst að ferðamenn framtíðarinnar verði einmitt í leit að slíkum hughrifum þegar þeir velja sér viðkomu- og dvalarstaði. Og líklega mun atvinnulíf framtíðarinnar ekki síst byggja á þessum sömu ferðamönnum.

Á strandir.saudfjarsetur.is mátti í gær lesa bréf Jóns E. Alfreðssonar, sem hann ritaði sveitarstjóra Strandabyggðar  fyrir hönd Mumma, félags áhugamanna um varðveislu Hilmis. Í bréfinu er m.a. stiklað á stóru í sögu Hilmis, allt frá því er hann kom fyrst til Hólmavíkur á sjómannadaginn 1944. Mummi var félag bjartsýnna manna sem nú hafa játað sig sigraða.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur