22/11/2024

Fjögurra bíla árekstur

Frá slysstað á föstudagMilli átta og níu í gærkvöldi varð fjögurra bíla árekstur á Holtavörðuheiði. Hann varð með þeim hætti að vegfarandi sem hafði lent utanvegar fékk aðstoð frá öðrum vegfarenda við að koma sér upp á veginn. Meðan á því stóð kom sá þriðji að og hægði á sér en sá fjórði lenti þá aftan á honum og henti honum út af og hafnaði svo á hinum tveimur sem fyrir voru. Einn bíll varð ónýtur og þrír aðrir skemmdust í árekstrinum. Kona sem var í bílnum sem keyrt var aftan á fékk slæman hnykk á hálsinn og bar sig illa. 

Síðastliðinn föstudag urðu tvær bílveltur á Holtavörðuheiði með skömmu millibili um miðjan dag. Engin slasaðist alvarlega, en tvær konur sem voru í jeppling fundu til í hálsi og baki og voru fluttar með sjúkrabíl til Hvammstanga til aðhlynningar. Bílarnir sem voru báðir á sumardekkjum eru ónýtir eftir, en mikil hálka myndaðist á heiðinni er leið á daginn. Brugðist var við með söltun og breyttust þá aðstæður.

Eftir þessa helgi eru því þrír bílar ónýtir og aðrir þrír skemmdir, samtals sex bílar, eftir akstur á Holtavörðuheiði. 

Ljósm. Sveinn Karlsson