25/11/2024

Verðlaun í samkeppninni Heimabyggðin mín

Drangsnesingarnir Inga Hermannsdóttir og Sandra Dögg Guðmundsdóttir tóku í vor þátt í verkefni sem kallað er Heimabyggðin mín og er á vegum Landsbyggðarvina. Gerðu þær stöllur sem eru í 8. og 9. bekk Grunnskóla Drangsness sér lítið fyrir og unnu 1. verðlaun í samkeppninni með vel útfærða lausn á stofnun Grásleppu- og nytjasafns á Drangsnesi til að efla ferðaþjónustu og auka tekjur heimabyggðarinnar. Deildu þær fyrsta sætinu með nemendum í Grunnskólanum í Hofgarði, Öræfum, sem unnu tillögu um uppbyggingu á Sandfelli, m.a. kirkju í upprunalegri mynd ásamt Þorgerðarkaffi (til minningar um Þorgerði landsnámskonu).

Þetta er í annað skiptið sem þær taka þátt, en í fyrra fengu þær þriðju verðlaun fyrir ritgerð um Ferðamannaparadísina Drangsnes.

Ljósmynd frá kynningu á verkefninu – www.drangsnes.is.