09/09/2024

Rebbi eggjaþjófur heimsækir Steingrímsfjörðinn

Eins og venjulega verður nokkuð vart við tófu á Ströndum þegar fuglalífið er farið að glæðast á vorin og leita þær þá gjarnan niður í fjöru. Það er hins vegar frekar óvenjulegt hér um slóðir að tófan skuli láta sér vel líka að teknar séu af henni myndir í návígi, en fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is náði þó að mynda rebba eggjaþjóf í morgun. Hann hefur gert sig heimakominn í varplandinu og étið æðaregg af mikilli elju og tjaldur og sandlóa hafa einnig orðið fyrir barðinu á honum. Rebbi hafði rænu á að hafa sig á brott áður en refaskyttan mætti á staðinn og slapp í bili. Fastlega má þó reikna með að græðgin verði honum að falli einhvern næstu daga. 

Rebbi

Rebbi eggjaþjófur hagar sér frekar einkennilega, er ekkert að flýta sér og hvorki menn né myndavélar raska ró hans verulega. Hann er því líklega hlaupadýr, e.t.v. af Hornströndum, en ólíklegt er hins vegar að hann komi af greni.

Refurinn er að byrja að fara úr vetrarbúningnum, fella gráu hárin. Litasamsetningin hentar vel til að fela sig í sinunni. Túngirðing ofan við veginn sést í baksýn á þessari mynd og næstu fyrir ofan ef skjárinn er skarpur. Myndirnar eru teknar um kl. 10:00 í morgun þannig að skolli er á ferðinni um hábjartan dag.

natturumyndir/580-rebbi-eggja5.jpg

Rebbi var hinn rólegasti á meðan myndatökumaður athafnaði sig í fárra metra fjarlægð, en hafði sig á brott áður en önnur vopn en myndavélin voru dregin fram. Hann er búinn að éta egg úr allnokkrum æðarhreiðrum síðustu daga, ljósmyndaranum til lítillar ánægju.

natturumyndir/580-rebbi-eggja2.jpg

Kannski hefur tjaldseggið sem hann var að bardúsa með og er í grasinu framan við nefið á rebba eggjaþjófi haldið honum á staðnum á meðan á myndatöku stóð. Tjaldarnir á svæðinu voru heldur en ekki hnípnir eftir heimsóknina, enda var farið að styttast í ungana.

natturumyndir/580-rebbi-eggja3.jpg

Rebbi sýpur hinn rólegasti úr egginu sem hann var að baksa með, hafði rænt tjaldshreiður hinu megin við veginn. Ólíklegt er þó að ævintýri rebba eggjaþjófs á Ströndum endi vel, frá hans sjónarhóli séð.

 – Ljósm. Jón Jónsson