22/11/2024

Framkvæmdafréttir af Ströndum

IMG_0057 (2)

Það er oft í mörg horn að líta á haustin hjá þeim sem starfa við margvíslegar framkvæmdir utanhúss. Í Selárdal er verið að reisa skíðaskála og á Hólmavík vinnur Trésmiðjan Höfði að breytingum á húsnæði Hólmadrangs. Á Norðurfirði stendur til að stækka höfnina og vinnur verktakafyrirtækið Tígur að þeim framkvæmdum. Vegaframkvæmdir eru að hefjast á vegum Borgarverks við vegagerð í Bjarnarfirði og verður fyrst sett farg sem þarf að síga við Bjarnarfjarðará, þar sem í framtíðinni kemur ný tvíbreið brú á ána. Svo snúa menn sér að vegagerðinni um Bassastaðaháls.

Vinnu við Borgabrautina á Hólmavík er að mestu lokið nú í haust, búið að malbika götuna og leggja nýjar lagnir, setja upp ljósastaura, brunahana og fleira gagnlegt. Vinna við gangstéttar og frágang bíður vorsins, en verið er að lagfæra planið við Hólmavíkurkirkju og setja þar upp ljósastaura, auk þess sem lagfærð er gönguleið milli Grunnskólans og kirkjunnar.

Framkvæmdum við Gjögurflugvöll í Árneshreppi er lokið og miklar umbætur þar orðnar að veruleika. Malbik var lagt á nokkra vegarkafla innansveitar í Árneshreppi við lok þeirra framkvæmda. Lagfæringum í kjölfar skriðufalla í Árneshreppi í haust er einnig að mestu leyti lokið, en þar skemmdust ræsi og vegir. Af annarri vegagerð er helst að frétta að í sumar var gengið frá lagfæringum þar sem vegir fóru í sundur í vatnavöxtum í vor og ræsi eyðilögðust, m.a. við Hvítá rétt utan Hólmavíkur. Eins er mikilvæg framkvæmd við að lagfæra einbreiða slitlagið í Bitrufirði frá Óspakseyri að Tunguá að baki.

Hafnarframkvæmdir við Kokkálsvíkurhöfn við Drangsnes eru í höfn og vinna við grjótvarnagarðinn við smábátabryggjuna á Hólmavík virðist ganga vel, en verkinu átti að ljúka nú um mánaðarmótin.

Vinna við kirkjuturninn á Hólmavíkurkirkju er að baki og búið að taka stillansa niður. Sama gildir um framkvæmdir við Grunnskólann á Hólmavík sem unnið var að í haust, en þá var skipt um járn á þaki gamla skólans og vesturgafl skólans klæddur og skipt um glugga þar.

Unnið er af kappi að lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafstrengs í Hrútafirði og ætti að vera búið að plægja stofnstrengi allt að Borðeyri í næstu viku, frá Þorpum í Steingrímsfirði. Þá er eftir vinna nú í haust við strengina frá Borðeyri að Brú annars vegar og milli Þorpa og Hólmavíkur hins vegar. Orkubú Vestfjarða og Austfirskir verktakar vinna að þessum verkefnum, ásamt Mílu. Eins lagði Orkubúið þrífasa rafstrengur á kafla innansveitar í Árneshreppi.

Margvíslegt einkaframtak og innanhúsframkvæmdir er þá ótalið og eflaust gleymdust einhverjar framkvæmdir utanhúss í upptalningu þessari.