14/09/2024

Minkasíurnar virka

Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is – Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum – fór í gærdag með Reyni Bergsveinssyni frá Gufudal að vitja um minkasíur sem hann átti í Langadal í Ísafjarðardjúpi. Minkasíur eru ný gerð af minkagildrum sem Reynir hefur fundið upp og er enn að þróa. Reynir lagði þessar síur síðastliðið sumar í Langadal og var búinn að fá nokkra minka í þær sl. haust. Vitjað var um sjö síur í þessari ferð og í þeim voru sextán minkar, þar af ellefu í einni sem er met hjá Reyni. 

Áður hafði mest verið sex í einni síu, en þarna átti kannski við það sem stundum er sagt, þröngt mega sáttir sitja og ósáttir troða sér, því heldur hefur verið orðið snautt um pláss í rörinu þegar ellefu minkar voru komnir inn í það.

Reynir hefur verið með minkasíur allvíða og fyrir utan Reykhólahreppinn sem hefur verið hans aðalveiðisvæði er hann með síur víða, m.a. í Dölunum og einnig suður í Ölfusi og víðar. Á síðasta ári segist hann hafa náð yfir eitthundrað og fimmtíu minkum í þær.

Þegar ég skyldi við kall átti hann eftir að kíkja í eina síu við Langadalsá og eina eða tvær í Laugabólsdal. Síðan átti að renna sér á Lödunni yfir Þorskafjarðarheiði á hjarni og gá í síur á heimasvæði.

Reynir kannar hvort ekki leynist fleiri í rörinu – ljósm. Guðbrandur Sverrisson.