08/10/2024

Jurta og náttúrulækninganámskeið

Mánudaginn næstkomandi, þann 20. júní, verður haldið jurta og náttúrulækninganámskeið í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Ágætis þáttaka er komin á námskeiðið og geta menn ennþá bæst í hópinn. Kennari á námskeiðinu er Hafdís Sturlaugsdóttir hjá Náttúrustofu Vestfjarða sem að sérhæfir sig í gróðri og landnýtingu. Gott er að þáttakendur hafi með sér skæri eða greinaklippur og taupoka til að safna jurtum í, en farið verður í vettvangsferð í nágrenni Hólmavíkur. Áhugasamir geta haft samband við Stínu í síma 867-3164.

Á jurtanámskeiðinu verður þátttakendum kennt að þekkja plöntur sem nýttar eru sem tejurtir eða til lækninga. Farið verður yfir útlit plantna og síðan farið í vettvangsferð. Í vettvangsferðinni safna þátttakendur plöntum og læra um leið að þekkja þær og hvernig gott er að bera sig að við söfnunina. Þá verður farið yfir hvaða aðferðir eru bestar til að geyma plöntur og plöntuhluta, hvaða tæki er helst að nota og fleira því tengt. 

Fræðslumiðstöðin vill gjarnan nýta sér bættar samgöngur milli Stranda, Saurbæjar og Reykhólasveitar með því að halda sameiginlega námskeið fyrir þessi svæði. Þannig hafa til dæmis starfsmenn á Fellsenda í Dalabyggð nýtt sér fagnámskeið fyrir heilbrigðisstéttir á Hólmavík . Námskeiðið fór fram á síðasta ári og keyrðu umræddir starfsmenn þrettán sinnum til Hólmavíkur á sex vikum til að taka þátt. Að þessu sinni eru komnir þátttakendur úr Reykhólasveit og frá Hólmavík og Ísafirði og fagnar Fræðslumiðstöðin því að fólk skuli vera tilbúið að leggja á sig ferðalög til að sækja námskeið.