22/11/2024

Auglýst eftir markaðsstjóra

Nú hefur verið auglýst að nýju eftir verkefnisstjóra við Markaðsskrifstofu Vestfjarða sem stendur til að stofna, en áður hafði Sigurður Sigurðarson gegnt stöðunni um skamma hríð. Fréttatilkynning frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða um starfslok hans fylgir hér á eftir. Tekið er fram í auglýsingu eftir nýjum starfskrafti á vefnum www.atvest.is að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem auglýsir stöðuna leitar að einstaklingi með háskólamenntun á sviði viðskipta- eða markaðsfræði, en einnig koma til greina einstaklingar með víðtæka reynslu í markaðssetningu ferðaþjónustu. Aðsetur starfsmannsins á að vera á Ísafirði, þannig að aðstandendur Markaðsstofunnar, sem eru sveitarfélögin á Vestfjörðum, AtVest og Ferðamálasamtök Vestfjarða, virðast hafa sammælst um þar og hvergi annars staðar verði hún starfrækt.

Fréttatilkynningin frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða er svohljóðandi:

"Sigurður Sigurðarson sem ráðinn verkefnisstjóri við Markaðsstofu Vestfjarða í september s.l., hefur af persónulegum ástæðum ákveðið að segja starfi sínu lausu. Samkomulag hefur orðið um að hann ljúki við ákveðna áfanga í verkefnum sem hafin eru á vegum Markaðsstofu, en að öðru leiti ljúki hann störfum nú í desember. Sigurði er þökkuð þau störf sem hann hefur unnið að á vegum Markaðsstofu Vestfjarða. Staða verkefnisstjóra hefur verið auglýst að nýju og umsóknarfrestur er til 12. desember n.k   Nánari upplýsingar veitir Albert Arnarson ráðgjafi hjá Hagvangi. Netfang: albert@hagvangur.is. Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is".