Sparisjóður Húnaþings og Stranda sem hefur höfuðstöðvar á Hvammstanga og útibú á Borðeyri, hefur yfirtekið rekstur innlánadeildar Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga, að því er fram kemur í fréttum Ríkisútvarpsins. Fáar vikur eru síðan kaupfélagið afhenti Sparisjóðnum húsnæði sitt að Höfðabraut 6 sem áður hýsti byggingavörudeild kaupfélagsins. Byggingavörurnar eru nú komnar í verslunarhúsnæði félagsins að Strandgötu 1, en framkvæmdir eru hafnar við nýja afgreiðslu sparisjóðsins í húsnæðinu að Höfðabraut.
Þetta er sagt þáttur í aðgerðum við að tryggja starfsemi kaupfélagsins á Hvammstanga og bjarga því frá því að komast í þrot, en reksturinn hefur orðið fyrir áföllum síðustu ár og taprekstur hefur verið viðvarandi. Í fréttinni kemur fram að einnig er rætt um að sameina rekstur kaupfélagsins á Hvammstanga rekstri KS á Sauðárkróki og einnig er rætt um að Samkaup taki við verslunarþættinum. Fleiri möguleikar munu einnig vera í skoðun.
Nánari upplýsingar má fá á vefjum fyrirtækjanna:
Kaupfélag Vestur-Húnvetninga: http://www.kvh.is/
Sparisjóður Húnaþings og Stranda: http://www.sphun.is/