11/10/2024

Kviknaði í loftpressu

Betur fór en á horfðist þegar kviknaði í loftpressu í rækjuverksmiðju Hólmadrangs á Hólmavík í nótt. Loftpressan var staðsett í herbergi fyrir ofan móttöku rækjuvinnslunnar. Starfsmaður fyrirtækisins, Lýður Jónsson, sem var nýkominn úr leikferð norður í Árneshrepp varð fyrir tilviljun var við eldinn um tvöleytið í nótt. Lýður var á leiðinni að skola ferðarykið af bílnum þegar hann sá að eldglæringum rigndi út um túðu á turni sem snýr að gamla kaupfélaginu. Lýður segist hafa hringt samstundis í 112 og lögregla og slökkvilið hafi komið að vörmu spori. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Mikill reykur og sót var í herberginu eftir atburðinn. 

Pressan er gjörónýt að sögn Gunnlaugs Sighvatssonar, framkvæmdastjóra Hólmadrangs, en önnur loftpressa í sama herbergi slapp við skemmdir. Hann segir að það hafi verið mikil mildi að ekki fór verr; eldurinn hefði hæglega getað læst sig í einhverja innviði hússins ef hann hefði fengið að loga lengur. Gunnlaugur vill koma á framfæri þakklæti til Slökkviliðs Hólmavíkur fyrir skjót og góð viðbrögð.

Ljósm. Jón Jónsson