18/04/2024

Hólmavík, Djúpivogur og Þórshöfn

Ef maður rýnir of lengi í íbúafjöldatölur Hagstofunnar er margt fróðlegt sem kemur í ljós. Eitt af því er að það eru alls ekki mörg sveitarfélög á Íslandi sem hafa svipaða íbúatölu og Hólmavíkurhreppur (459 íbúar). Önnur sveitarfélög með íbúa á fimmta hundrað eru aðeins fjögur: Þórshafnarhreppur (414), Skútustaðahreppur (434), Djúpavogshreppur (477) og Mýrdalshreppur (498). Af þorpum af svipaðri stærðargráðu og Hólmavík (389 íbúar) má helst nefna Hellissand (388), Þórshöfn (389) og Djúpavog (381).

Veruleg líkindi eru reyndar með Hólmavík, Djúpavogi og Þórshöfn – töluverður spotti er í næsta stóra þéttbýlisstað, það hefur fækkað töluvert í þorpunum síðustu átta árin og sveitarfélögin samanstanda af þorpi og dreifbýli í kring. Vel mætti hugsa sé að þessir staðir tækju upp stjórnmálasamband og reyndu að læra eitt og annað hvert af öðru, bæði því sem vel gengur og miður hefur farið.  

Til gamans má geta þess að 48 þéttbýli á landinu eru fjölmennari en Hólmavík og Þórshöfn, þar sem jafn margir búa.