22/12/2024

Yfirlit um veðrið í ágúst

Á Dröngum í ágúst 2008 - ljósm. Jón G.G.Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is birtir að venju yfirlit  yfir veðrið í liðnum mánuði frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík, en það er Jón G. Guðjónsson sem tekur yfirlitið saman. Ágúst var að mestu hægviðrasamur og úrkomulítið fram til 25. og yfir heildina mildur. Talsvert var um þokuloft fram til 11. ágúst. Þeir bændur sem áttu eftir fyrri slátt kláruðu hann í byrjun mánaðar, nokkrir bændur slógu seinni slátt (há) og gerðu það upp úr miðjum mánuði.

Yfirlit eftir dögum:

1.-12.: Hafáttir NV til NA átt, kul, gola eða stinníngsgola, þokuloft, súld með köflum, hiti 6 til 11 stig.
13.: Breytileg vindátt, kul, þurrt í veðri, hiti 5 til 13 stig.
14.-15.: Suðvestan stinníngsgola upp í allhvassan vind, smá skúrir, hiti 9 til 15 stig.
16.-18.: Sunnan og síðan suðaustan, stinníngsgola, smá skúrir eða rigning, þurrt þann 17., hiti 9 til 16 stig.
19.: Norðan kul eða gola, þurrt, hiti 9 til 11 stig.
20.-23.: Breytileg vindátt eða suðlægar, gola upp í stinníngsgolu, rigning eða skúrir með köflum, þurrt þann 20., hiti 5 til 17 stig.
24.: Breytileg vindátt, gola, hiti 6 til 12 stig.
25.: Norðan stinníngsgola upp í kalda, súld og síðan talsverð rigning, hiti 8 til 10 stig.
26.-27.: Suðlæg vindátt síðan breytileg, stinníngsgola í fyrstu síðan kul, rigning fyrri daginn, hiti 5 til 12 stig.
28.: Norðaustan gola hvessti um kvöldið, smá súld, hiti 9 til 11 stig.
29.: Norðaustan og ANA hvassviðri eða stormur fram á dag, síðan suðaustan stinníngsgola, rigning, skúrir, hiti 9 til 12 stig.
30.: Breytileg vindátt, gola, smá skúrir, hiti 9 til 14 stig.
31.: Logn í fyrstu, síðan norðvestan gola með þokulofti og smá súldarvotti, hiti 5 til 10 stig.

Úrkoman mældist 52,4 mm (í ágúst 2007 var úrkoman 72,3 mm).
Þurrir dagar voru 8.
Mestur hiti var þann 23. þá 16,6 stig.
Minnstur hiti var þann 20. þá 4,6 stig.
Meðalhiti við jörð var 5,59 stig (í ágúst 2007 var meðalhiti við jörð 5,79 stig).
Sjóveður: Mjög gott sjóveður til 24., en frá 25. og út mánuðinn slæmt í sjóin.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.