11/10/2024

Ályktun um Arnkötludalsveg

Á íbúafundi sem haldinn var á Hólmavík þriðjudaginn 8. mars var lögð fram ályktun um samgöngumál sem var samþykkt samhljóða af fundargestum með lófataki. Það var Engilbert Ingvarsson frá Tyrðilmýri sem lagði tillöguna fram og mun hún verða send þingmönnum og ráðherrum auk annarra viðeigandi aðila. Tillagan er svohljóðandi:

"Fjölmennur íbúafundur á Hólmavík 8. mars 2005 skorar á samgönguráðherra og aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis að tryggja það að vegur um Arnkötludal og Gautsdal verði lagður sem fyrst, vegna stóraukinna þungaflutninga.

"Stefnt verði að því að vegarlagning verði boðin út innan árs. Náttúrustofa Vestfjarða hefur annast umhverfismat fyrir Leið ehf., sem hefur fengið Línuhönnun h.f. til að undirbúa framkvæmdir við Arnkötludalsveg. Væntanlega mun endanleg skýrsla um umhverfismat vera lögð fyrir skipulagsstofnun bráðlega.

Fundurinn þakkar Jónasi Guðmundssyni sýslumanni í Bolungarvík ómetanlega forystu um það að flýta rannsóknum og undirbúningi að vegagerðinni, sem styttir vegaleið um 40 km., verður nauðsynleg samgöngubót og mikið hagsmunamál fyrir atvinnurekstur og alla íbúa á norðanverðum Vestfjörðum."

Engilbert les upp tillöguna á fundinum.