22/12/2024

Vorhugur í mönnum og dýrum

Hvert sem litið er blasir við að vorhugurinn hefur náð yfirhöndinni. Fyrstu æðarkollurnar eru lagstar á hreiður, rjúpan farin að skipta litum og fyrsta krían kom í nótt til Steingrímsfjarðar og lenti við ósa Selár. Tjaldbúar eru farnir að láta sjá sig á tjaldsvæðinu á Hólmavík, ærnar eru komnar út á tún með lömbin sín og hvarvetna má sjá að það er líka kominn framkvæmdahugur í mannfólkið.

Vörubílaeigendur gera bíla sína klára fyrir átök sumarsins og við kirkjuna á Hólmavík er trésmiðjan Höfði búin að setja upp stillansa fyrir vinnuflokk sem væntanlegur er til að skipta um þakefni á kirkjunni og leggja það kopar eins og turninn á síðasta ári. Er áætlað að það verk taki 4-6 vikur.

Við söluskála KSH á Hólmavík eru líka framkvæmdir í gangi, en þar á að bæta við olíudælu sem afgreiðir litaða olíu fyrir landbúnaðartæki og vinnuvélar. Bensínsjálfsalinn sem fyrir er við Söluskálann er hins vegar ekki í neinu sumarskapi og afgreiddi nú í morgun ekki nokkurn mann um bensín þó menn hefðu öll tilskilin kort og inneignir á þeim. Græðir þó Essó óvíða jafn mikið á bensíni í sjálfsafgreiðslu. Sennilega er sjálfsalinn fúll yfir að fá ekki félagsskap frá annarri sambærilegri dælu fyrst þessar framkvæmdir eru í gangi á annað borð, en þegar mikið er að gera myndast við hann nokkur röð.

Ljósm. Jón Jónsson