11/10/2024

Vonast eftir góðum ágústmánuði

Að sögn Jóns Jónssonar forsvarsmanns Sauðfjárseturs á Ströndum hefur júlímánuður verið ljómandi góður í ferðaþjónustunni á Ströndum. Býst hann einnig við góðum ágústmánuði á sögusýningu Sauðfjársetursins í Sævangi, enda eigi íslenskt bændafólk og Ítalir það sameiginlegt að vera helst á ferðinni í ágústmánuði: "Reynslan sýnir að ágúst er oft ekkert síðri en júlí á safninu í Sævangi. Svo hefur nú ferðatímabilið jafnt og þétt verið að lengjast fram á haustið hér á Ströndum á síðustu árum og töluvert mikið er af ferðafólki í september líka."

Verið er að undirbúa miklar skemmtanir sem tengjast Sauðfjársetrinu síðustu helgina í ágúst, en laugardaginn 26. ágúst verður Landsmót hagyrðinga haldið á Hólmavík: "Þetta er nokkurs konar árleg árshátíð þeirra sem unna kveðskap og vísnagerð og allir sem áhuga hafa eru velkomnir, þarna verður gríðarleg lambakjötsveisla og skemmtiatriði, fyrir utan auðvitað alla fremstu hagyrðinga landsins sem fara á kostum. Búist er við um það bil 100 aðkomumönnum og öðru eins af heimafólki, u.þ.b. 60 hafa pantað nú þegar." Skráning á Landsmótið fer fram í tölvupóstinum saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is og þar eru veittar nánari upplýsingar.

Daginn eftir, sunnudaginn 27. ágúst, verður síðan haldið árlegt meistaramót í hrútaþukli og dómum á Sauðfjársetrinu í Sævangi. "Það er mikil skemmtun þar sem bændafólk af öllu landinu hittist og á góðan dag. Við ætlum að hafa matarmikla kjötsúpu á boðstólum í Sævangi til viðbótar við hefðbundið kaffihlaðborð og svo verður auðvitað sýningin og handverksbúðin opin og líklegt að farið verði í leiki á vellinum að venju. Jón Viðar Jónmundsson verður yfirdómari að venju, en í fyrra mættu um það bil 300 manns á mótið," segir Jón.