22/12/2024

Vodafone sér um síðari áfanga GSM-væðingar

Fjarskiptasjóður hefur samið við Vodafone um síðari áfanga við uppbyggingu GSM-sambands á vegum sjóðsins. Í þessum áfanga kemur samband á stofnvegi á Vestfjörðum, m.a. í innanverðum Steingrímsfirði og frá Hrútafirði í Steingrímsfjörð. Samningsupphæðin er 400 milljónir eða 332 milljónum undir fjárhagsáætlun og á verkinu að ljúka á 12 mánuðum. Einnig var töluverður munur á fjárhagsáætlun og samningi við fyrri áfangann, þannig að nú hlýtur að vera til nóg af fjármagni til að bæta þriðja áfanga uppbyggingar við. Beinir strandir.saudfjarsetur.is því til allra málsmetandi aðila og vina byggðar á norðanverðum Ströndum að þrýsta nú almennilega á um að GSM-sambandi verði komið á í Bjarnarfirði og Árneshreppi.

Verkefnið við Vodafone snýst um uppbyggingu á þjónustu á völdum svæðum þar sem markaðslegar forsendur standa ekki undir rekstri slíks kerfis. Stefnt er að því að ljúka verkinu á 12 mánuðum og er samningsupphæðin 400 milljónir króna. Endanleg samningsupphæð lækkaði frá því sem upphaflega stóð til vegna áforma Vodafone  um uppbyggingu á markaðsforsendum á tilteknum svæðum. Friðrik Már Baldursson, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs og Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone, skrifuðu undir samninginn.

Þrjú tilboð bárust í síðari áfanga GSM-farsímaþjónustunnar og voru þau opnuð 16. október. Tvö eru frá innlendum fyrirtækjum og eitt frá svissnesku. Tilboðin voru öll undir kostnaðaráætlun fjarskiptasjóðs sem var 732 milljónir króna. Bjóðendur voru:

Síminn hf. 655 milljónir króna – 12 mánaða verktími.
Vodafone (Og fjarskipti ehf.) 487 milljónir króna – 22 mánaða verktími.
Amitelo AG 468 milljónir króna – 12 mánaða verktími.

Sá sem lægst bauð, svissneska fjarskiptafyrirtækið Amitelo, fullnægði ekki kröfum sem gerðar voru vegna verkefnisins og því var gengið til samninga við þann sem átti næst lægsta tilboðið. Ríkiskaup önnuðust framkvæmd útboðsins fyrir hönd fjarskiptasjóðs.

Þessi síðari áfangi farsímaverkefnisins varðar styrkingu GSM farsímaþjónustu á stofnvegum og ferðamannasvæðum þar sem GSM þjónusta er takmörkuð í dag. Alls eru þjónustusvæðin í þessum áfanga 32. GSM þjónustan verður bætt á vegum á Vestfjörðum, Norðausturlandi, í Fljótum, víða á Snæfellsnesi, á Bröttubrekku, Dölunum og Suðurstrandarvegi svo dæmi séu tekin. Ferðamannasvæðin eru til dæmis þjóðgarðarnir við Snæfellsjökul og í Jökulsárgljúfrum.

Síminn átti lægsta tilboð í fyrri áfanga GSM verkefnisins og er það nú langt komið. Í þeim áfanga var komið á GSM þjónustu á öllum Hringveginum, fimm fjallvegum og nokkrum ferðamannasvæðum.

Á meðfylgjandi mynd sem fylgdi fréttatilkynningu Samgönguráðuneytis eru Friðrik Már Baldursson, formaður stjórnar Fjarskiptasjóðs (nær) og Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone, að skrifa undir samninginn.