19/04/2024

Vinstri grænir bæta við manni

Samkvæmt skoðanakönnun í Þjóðarpúlsi Capacent um fylgi flokkanna í Norðvesturkjördæmi er Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi (28%) um síðustu mánaðarmót og Samfylking með minnst (15%). Vinstri grænir bæta mest við sig milli mánaða, voru með 20% fylgi síðast en 25% nú, en Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu, var með 35% fylgi síðast. Kjördæmið hefur níu þingmenn eftir næstu kosningar, átta sem kosnir eru í kjördæminu og einn að auki sem atkvæði sem annars falla dauð á landsvísu hafa áhrif á hver verður.  

Ef ritstjóra bregst ekki bogalistin í hugarreikningnum fá Sjálfstæðismenn þá 3 þingmenn (28%) af þeim átta kjördæmakjörnu, Vinstri grænir 2 (25%), Framsókn 1 (17%), Frjálslyndir 1 (16%) og Samfylking 1 (15%). Svo litlu munar á næstu mönnum að það er ómögulegt að spá fyrir um hvar uppbótarsætið lendir, það fer eftir atkvæðum annars staðar á landinu.

Röð þingmannanna yrði þessi ef þetta yrði niðurstaða kosninganna:

1. Sturla Böðvarsson – 1. maður hjá Sjálfstæðisflokki
2. Jón Bjarnason? – 1. maður hjá Vinstri grænum
3. Magnús Stefánsson – 1. maður hjá Framsókn
4. Guðjón Arnar Kristjánsson? – 1. maður hjá Frjálslyndum
5. Guðbjartur Hannesson – 1. maður hjá Samfylkingu
6. Einar K. Guðfinnsson – 2. maður hjá Sjálfstæðisflokki
7. ? – 2. maður hjá Vinstri grænum
8. Einar Oddur Kristjánsson – 3. maður hjá Sjálfstæðisflokki
_________________________________________________
9. Herdís Sæmundardóttir – 2. maður hjá Framsókn
10. ? – 3. maður hjá Vinstri grænum
11. Sigurjón Þórðarson? – 2. maður hjá Frjálslyndum
12. Karl V. Matthíasson – 2. maður hjá Samfylkingu
13. Herdís Þórðarsdóttir – 4. maður hjá Sjálfstæðisflokki

Rétt er að benda á að einungis Sjálfstæðismenn og Samfylking hafa birt lista sína. Prófkjöri er lokið hjá Framsókn en listinn liggur ekki fyrir, en giskað er á nöfn þingmanna hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum með hliðsjón af núverandi þingmönnum. 

Rétt er að benda á að svo virðist sem það fari saman í þessum könnunum í kjördæminu að endanlegir listar séu birtir og fylgi minnki hjá flokkunum. Þá er ekki ljóst hvaða ákvörðun Kristinn H. Gunnarsson tekur varðandi framboðsmál en hann barðist um 1. sæti en lenti í því 3. í prófkjöri Framsóknar og einnig er óvíst hver niðurstaðan um forystusveitina verður á landsþingi Frjálslyndra í janúar. Loks má nefna að fréttir berast öðru hverju af hugmyndum um framboð eldri borgara og félagsins Framtíðarlandið. Þetta á væntanlega allt saman eftir að setja strik í reikninginn, ásamt því hvernig kosningabaráttan þróast.

Miðað við þessa könnun og síðustu kosningar virðist þó vera að Vinstri grænir eigi góða möguleika á að bæta við manni í kjördæminu, en Samfylking, Frjálslyndir og Framsókn eiga á hættu að tapa manni.