22/12/2024

Vinnubrögðum Vegagerðarinnar í Gautsdal mótmælt

Á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps í lok júlí var fjallað um vegagerð í Gautsdal, en þar er verið að vinna í nýjum Arnkötludalsvegi sem tengir saman Reykhólahrepp og Strandabyggð. Á fundinum mótmælti hreppsnefnd harðlega vinnubrögðum Vegagerðarinnar við lagningu vegarins og krafðist skýringa á því hvers vegna vegurinn hafi verið færður til um 60-70 metra frá þeirri veglínu sem gert var ráð fyrir í umhverfismati og framkvæmdaleyfi var gefið fyrir. Kemur fram í bókun hreppsnefndar að þetta hafi verið gert án þess að leita umsagnar Skipulagsstofnunar, eins og lög gera ráð fyrir. Sveitarstjóra var falið að koma mótmælum hreppsnefndar Reykhólahrepps á framfæri.