30/10/2024

Viðvaningur eða smíðabæklingur handa unglingum

Nýlega kom út bók sem ber heitið Viðvaningur eða smíðabæklingur handa unglingum. Samantekinn úr ýmsum bókum og eptir eigin reynslu með 13 myndum af Þorsteini Þorleifssyni. Bók þessi var upphaflega send til prentunar á Akureyri árið 1868 og mun hafa verið boðin Búnaðarfélagi Suðuramtsins til prentunar nokkrum árum síðar. Ekki er vitað um ástæður þess að í hvorugt skiptið varð af útgáfu, en þar sem handrit að bókinni er til þótti full ástæða til að skrifa það upp og gefa út. Rétt þótti að halda upphaflegri forsíðu þótt myndirnar 13 sem þar er getið hafi því miður ekki fundist og vanti því í bókina.

Höfundurinn, Þorsteinn Þorleifsson, fæddist árið 1824 en drukknaði árið 1882. Hann var Austur-Húnvetningur að ætt, en bjó í 24 ár í Strandasýslu, lengst af í Kjörvogi í Árneshreppi. Járnsmíði nam hann í Reykjavík og í Kaupmannahöfn og vann ávallt við smíðar samhliða búskap og sjómennsku. Þorsteini rann til rifja hve erfitt var fyrir unglinga og aðra sem höfðu náttúru til smíða að nálgast upplýsingar eða fá tilsögn og því réðst hann í það þrekvirki að taka efni bókarinnar saman.

Bókin er 100 blaðsíður að stærð í A5 broti og skiptist í 138 tölusetta kafla. Hún er að miklu leyti um málma eins og járn, eir, gull og silfur, auðkenni málmanna, smíðar úr þeim, gyllingu og fleira. Einnig um litun á tré og beinum. Ýmis konar húsráð eru í 6 öftustu köflunum. Aftan við meginmálið er eftirmáli höfundar og loks ritar hann stutta athugasemd.

Afkomandi Þorsteins, Hallgrímur Gíslason frá Gröf við Bitrufjörð, skrifaði handritið upp, ritaði formála, vann orðskýringar og gaf bókina út.

Sýning um ævi og muni Þorsteins Þorleifssonar verður opnuð í Minja- og handverkshúsinu Kört í Árnesi í Trékyllisvík laugardaginn 26. júní næstkomandi og verður bókin þar til sölu. Einnig er hægt er að panta eintak hjá útgefanda í netfanginu hallg@simnet.is.