23/12/2024

Vetrarnótt/sumarnótt í Gallerý Klúku

Næstkomandi laugardag, 11. júní 2011, kl. 15:00 verður opnuð  myndlistasýning í GALLERÝ KLÚKU á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Heiti sýningarinnar er VETRARNÓTT/SUMARNÓTT og það er myndlistamaðurinn Rúna Þorkelsdóttir sem sýnir verk frá ýmsum tímum, m.a. hinar kunnu blómamyndir sínar sem unnar eru með akrýl á pappír, auk sérstakrar innsetningar þar sem vetur mætir sumri.

 Rúna Þorkelsdóttir hefur verið starfandi myndlistamaður í Amsterdam síðustu 35 árin og rekur þar myndlistabókabúðina Boekie Woekie ásamt tveimur öðrum myndlistamönnum, Hettie van Egten og Jan Voss. Útibú frá Boekie Woekie var sett upp í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu á yfirlitssýningu Dieter Roth á Listahátíð árið 2005. Guðrún Ágústa Þorkelsdóttir er fædd í Hafnarfirði árið 1954. Hún lauk námi frá Myndlistarskólanum í Reykjavík árið 1976 og stundaði framhaldsnám við Konstfackskolan í Stokkhólmi og síðar Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam. 
Verk eftir Rúnu er meðal annars að finna í Listasafni Kópavogs, Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands, Konstslöjdmuseum í Gautaborg, Stedelijk safninu í Amsterdam og Nýlistasafninu í Reykjavík. Einnig á hún bækur í Stedelijk Museum í Amsterdam, Museum of Modern Art í New York, Museum of Contemporary Art í Chicago, Victoria and Albert Museum í London, Sveaborg Cultural Centre í Helsinki, Collection Aldo Frei í Frankfurt, Collection Marvin Sackner í Miami Beach, Collection Walther König í Köln og Museum of Modern Art í San Francisco. Rúna hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heim og erlendis. Árið 2010 átti hún verk á sýningunni Konur í myndlist á áttunda áratugnum: Með viljann að vopni á Kjarvalsstöðum og í byrjun árs 2011 á sýningunni Thirty Years of Japanise Fashion í Barbican Center í London. 
Sýning Rúnu í Gallerí Klúku er sölusýning og opin alla daga frá kl. 10:00 til kl. 22:00 fram eftir sumri. 
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.