22/12/2024

Vetraráætlun í 50 ár

Um þessar mundir eru 50 ár síðan rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson hf tók upp áætlunarferðir á Strandir yfir vetrartímann og hefur sinnt þeim akstri síðan. Um næstu áramót verða þó umskipti þar á þegar Hópferðamiðstöðin-Vestfjarðaleið ehf tekur við sérleyfinu á leiðinni Brú-Hólmavík-Drangsnes til næstu þriggja ára. Í framhaldi af þessu má geta þess að Sögusmiðjan á Kirkjubóli hefur nýverið hafið söfnun á heimildum og myndefni sem tengjast samgöngum á Ströndum á 20. öldinni – vegagerð, brúarsmíði, rútuferðum og ævintýralegum bílferðum. Gott væri að fá upplýsingar um slíkar myndir sendar á sogusmiðjan@strandir.saudfjarsetur.is.

Fullvíst má telja að töluvert myndefni sé til frá upphafi vegagerðar fyrir bifreiðar á Ströndum, enda er hreint ekki svo langt síðan svæðið komst í vegasamband. Vegurinn um Steinadalsheiði var fyrst farinn á bíl 1932 og opnaður ári síðar og lá aðalleiðin til Hólmavíkur þar um næstu árin. Það var ekki fyrr en um 1948(?) sem vegagerð lauk um Broddaneshlíð þannig að vegurinn suður Strandir leysti sumarveginn um Steinadalsheiði af hólmi. Eins lauk gerð vegar norður í Árneshrepp ekki fyrr en 1965, fyrir 40 árum.