Categories
Frétt

Viltu finna milljón um helgina?

Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir á föstudaginn gamanleikinn Viltu finna milljón? eftir Ray Cooney í leikstjórn Arnars S. Jónssonar. Það var Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi verkið á íslensku, en það hefur áður verið sett upp í Borgarleikhúsinu 2007 og hjá Leikfélagi Sauðárkróks í Sæluviku 2008. Frumsýningin verður á föstudaginn 24. apríl í Félagsheimilinu á Hólmavík, en einnig verða sýningar þar sunnudaginn 26. apríl, föstudaginn 1. maí og laugardaginn 2. maí. Sýningarnar hefjast allar kl 20.

Miðapantanir eru í síma 895-3939 og á netfanginu stebbij@islandia.is. Eftir sýningarnar á Hólmavík er áformað að fara í leikferðir með verkið og mun ítarlegra sýningaplan liggja fyrir fljótlega.

Leikendur í farsanum eru Einar Indriðason og Ester Sigfúsdóttir, Gunnar B. Melsted, Úlfar Örn Hjartarson, Ingibjörg Emilsdóttir, Jón Jónsson, Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Matthías Sævar Lýðsson. Auk þeirra kemur fjöldi annarra að uppsetningunni.

Rétt er einnig að vekja athygli á því að Leikfélag Hólmavíkur hefur haslað sér völl á samskiptavefnum Facebook og langar gjarnan til að eignast fleiri vini á þeirri ágætu síðu.

 

Leikhópurinn í stuði