08/05/2024

Vestfjarðastofa stofnuð á Ísafirði 1. des.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga hefur nú um nokkurt skeið staðið yfir undirbúningur að stofnun Vestfjarðastofu. Hún mun taka að sér þau verkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hafa sinnt hingað til og er ætlunin að Vestfjarðastofa verði sjálfseignarstofnun, en sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök á Vestfjörðum og víðar komi að því að stofna.

Tilgangur Vestfjarðastofu verður að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og veita margháttaða ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, byggðaþróun og menningu á Vestfjörðum. Stofnfundur Vestfjarðastofu verður haldinn þann 1. desember kl. 13 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Dagskrá stofnfundar:

  1. Stefnumótun Vestfjarðastofu kynnt
  2. Stofnskrá – kynning og samþykkt
  3. Fjárhags- og starfsáætlun
  4. Kosningar:
    1. Kjör stjórnar
    2. Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis
    3. Kjör starfsháttanefndar
  5. Ákvörðun um þóknun stjórnar
  6. Önnur mál

Fundurinn er öllum opinn, en áhugasamir eru beðnir um að skrá sig á netfangið fv@vestfirdir.is.